Skilmálar

Við viljum biðja gesti Rósakots að kynna sér vel skilmála, húsreglur og leiðbeiningar sem eru hér að neðan. Sumarhúsið Rósakot er afar vel búið tækjum og búnaði og viljum við tryggja öryggi gesta með því að lágmarka alla þá hættu þá sérstaklega eldhættu, með neðangreindum skilmálum. húsreglum og leiðbeiningum.

Bókunarskilmálar

 

  1. Aldurstakmark
    Öllum þeim sem hafa náð 30 ára aldri á þeim degi sem pöntun er lögð fram er heimilt að leigja húsið. Skilyrði er að skráður leigjandi fyrir Rósakoti sé með viðveru á leigutíma.
  2. Afhendingartími og skil
    Leigutaka eru heimil afnot af húsinu frá kl. 17.00 á komudegi og ber að skila húsinu af sér kl. 12.00 á brottfarardegi, eins og hann fékk það afhent bæði að innan og utan.
  3. Afhending lykla
    Lyklar eru í lyklakassa við hlið útihurðar – leigjendur fá uppgefið númer á lyklalás fyrir komu.
  4. Aðkoma og ástand
    Ef leigutaki verður var við skemmdir á bústað eða húsmunum ber honum að tilkynna það til eiganda bústaðar innan 24 stunda frá komu, en annars jafnóðum ef hann verður þeirra ekki var fyrr en eftir þetta tímamark. Sama á við ef þrifum er ábótavant og skal leigutaki þá tilkynna það strax við komu í bústað til eiganda bústaðar.
  5. Umgengni
    Leigutaki skuldbindur sig til að ganga vel um bústaðinn og gæta þess að valda íbúum nærliggjandi bústaða ekki ónæði. Skilyrði er að sængurföt séu notuð á rúmfatnað. Reykingar eru ekki leyfðar innandyra. Öll neysla vímuefni er stranglega bönnuð og komi ljós að slík neysla hafi farið fram í húsinu, verður hún tilkynnt tafarlaust til lögreglu. Leigutaki skuldbindur sig einnig til að kynna sér og fara eftir þeim húsreglum, sbr. skjal um húsreglur sem er hluti af þessum skilmálum.
  6. Gæludýr
    Gæludýr eru ekki leyfð í húsinu eða lóð þess.
  7. Skil á húsinu
    Fjallað er nánar um skil á húsinu í skjali um Húsreglur og öryggismál. Rétt er að taka fram að ef leigutaki skilar ekki af sér eins og húsreglur gera ráð fyrir, áskilur eigandi sér rétt að lokaþrif verða framkvæmd á hans kostnað. Kostnaður við þrif er að lágmarki 25.300 kr.
    Einnig er reiknað sér gjald fyrir rafmagnsnuddpott ef umgengni er ekki samkvæmt reglum.
    Kostnaður við sér þrif og sótthreinsun á rafmagnsnuddpotti er 21.400 kr.
  8. Ábyrgð
    Leigutaki ber ábyrgð á því sem skemmist á meðan á dvöl hans stendur og ber án tafar að tilkynna eiganda um skemmdir sem verða á leigutíma. Ef eitthvað verður þess valdandi að notagildi bústaðarins rýrist ber leigutaka að tilkynna eiganda það í síðasta lagi við skil á húsinu.
  9. Bókun og greiðsla
    Þegar leigutaki hefur bókað gistingu og gengið frá greiðslu, fær hann senda staðfestingu í tölvupósti um bókunina en með póstinum fylgja skjöl um húsreglur og öryggismál ásamt skjali sem hefur að geyma leiðbeiningar um úti-og inniarinn.
  10. Afbókun
    Afbókun ber að tilkynna til Ferðaeyjunnar 14 dögum fyrir innritunardag með tölvupósti eða öðrum sannarlegum hætti og þá fæst 100% endurgreiðsla. Að öðru leyti eru afbókunarskilmálar með eftirfarandi hætti:
  • Ef afbókun fer fram 13 dögum  fyrir innritunardag, þá fæst 50% endurgreiðsla af heildarverði.
  • Ef afbókun fer fram 7 dögum fyrir áætlaðan komudag, þá fæst 30% endurgreiðslu af heildarverði.
  • Ef afbókun fer fram 1-7 dögum fyrir áætlaðan komudag eða á komudeginum sjálfum, þá fæst 0% endurgreiðslu af heildarverði.
  • Ef leigutaki mætir ekki án skýringa, þá fæst 0% endurgreiðslu af heildarverði.
  1. Force Majeure.
    11.1. Í tengslum við samning þennan skal hugtakið „Force Majeure“ eiga við um eftirfarandi atburði eða aðstæður: stríð, stríðsástand eða sambærilegt ástand, náttúruhamfarir s.s. jarðskjálfta, eldgos, gasmengun, flóð, eld, bruna og aðra náttúrulega viðburði sem aðilar samnings hafa hvorki valdið eða hafa áhrif á, verkföll starfsmanna leigusala og verktaka á vegum leigusala og verkföll annarra aðila ótengdum leigusala sem áhrif hafa á efni samningsleigusala og leigutaka, farsóttir eða ástand vegna sjúkdóma sem hindra efndir samkvæmt leigusamningi, aðgerðaeða laga, reglna eða fyrirmæla opinberra aðila, s.s. stjórnvalda eða lögreglu.
    11.2. Telji leigusali þær aðstæður eða atburð hafa orðið sem falla undir Force Majeure samkvæmt samningsskilmálum þessum og þær muni hafa veruleg áhrif á getu leigusala til að efna leigusamning, skal leigusali tilkynna leigutaka skriflega framangreint þar sem tilgreina skal nákvæmlega aðstæður og atburði sem að mati hans leiða til þess að jafna eigi atburði eða aðstæðum við Force Majeure samkvæmt ákvæði þessu.
    11.3. Við framangreindar aðstæður telst hvorugur samningsaðili vanefna leigusamning aðila, sé til staðar atburður eða aðstæður sem jafna má til Force Majeure, tilkomnar eftir gildistöku leigusamnings og hafi ekki verið fyrirsjáanlegar þegar leigusamningur milli aðila var gerður.
    11.4. Nú hindrar atburður eða aðstæður sem jafna má við Force Majeure samkvæmt ofan sögðu því að aðilar geti efnt skuldbindingar sínar samkvæmt leigusamningi og slíkar hindranir vara í skemmri tíma en 30 daga samfleytt, þá skulu samningsskyldur leigusala og leigutaka frestast meðan atburður eða aðstæður vara. Ljúki ástandi eða aðstæðum innan framangreinds tíma, skulu samningsskyldur leigusala og leigutaka þá aftur taka gildi að teknu tilliti til breytinga sem leiða af Force Majeure.
    11.5. Nú hindrar atburður eða aðstæður sem jafna má við Force Majeure samkvæmt ofansögðu því að aðilar geti efnt skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum þessum, og fær leigutaki 100% endurgreiðslu af heildarverði.
    11.6. Hvorugur aðila, leigusali og leigutaki, skal vera ábyrgur hvor gagnvart öðrum vegna þessa, hvorki vegna beins og/eða óbeins tjóns, sem aðili kann að verða fyrir vegna Force Majeure.
  2. Upplýsingar um leigutaka
    Leigutaki ber ábyrgð á að allar upplýsingar um hann sjálfan og þá gesti sem hann skráir í bókunarbeiðni, þar með talið um að hann hafi náð 30 ára aldri og fjölda leigjenda séu réttar. Ekki er leyfilegt að fleiri aðilar gisti í húsnæðinu en gefið er til kynna á vefsíðunni sem hámarksfjöldi gesta nema annað sé um samið. Hafi leigutaki vísvitandi gefið upp rangar upplýsingar er leigusala heimilt að rifta leigusamningi og vísa leigutaka á brott án tafar. Leigusala er heimilt að krefja leigutaka um skilríki.
  3. Tvíbókanir
    Í þeim tilfellum þar sem leigusali hefur tvíbókað eignina og getur ekki afhent eignina samkvæmt bókun fær leigutaki endurgreitt að fullu.
  4. Tjón á hinu leigða
    Leigutaki verður krafinn um bætur vegna skemmda á bústað eða slæmra þrifa, sbr. grein 6. Hins vegar mun eigandi krefja leigutaka um skýringar vegna skemmdanna áður en eigandi mun leggja fram með formlegum hætti kröfur um bætur. Ef það kemur í ljós að leigutaki eða gestir á hans vegum, hafi ekki með ásetningi valdið skemmdum á húsinu eða munum þess, þá gætu slíkar skemmdir verið bættar af tryggingafélagi leigutaka.
  5. Dómsmál.
    Mál sem kunna að koma upp vegna þessara skilmála skulu vera rekin fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra.

 

Leiðbeiningar fyrir inni-og útiarinn

 

Inniarinn

Það krefst fullrar athygli að kveikja upp í inniörnum og því skal vanda sérstaklega vel til verka. Því er nauðsynlegt að lesa meðfylgjandi leiðbeiningar vel og vandlega áður en kveikt er upp. Ef farið er nákvæmlega eftir þessum leiðbeiningum þá mun eldurinn loga rétt og skapa notalega stemningu. Það er sannarlega fátt notalegra en að hreiðra um sig í sófanum með vinum og vandamönnum og eiga notalega kvöldstund þar sem hitinn, lyktin og snarkið frá arineldinum skapar rómantíska stemningu.

Athugið að leiðbeiningarskjal þetta er hluti af leiguskilmálum sumarhússins sem finna má á www.rosakotid.is og leigutaki hefur fengið sent með tölvupósti.
Það virðist ofur einfalt að henda nokkrum arinkubbum í arininn og kveikja síðan í en svo er ekki.
Það er alls ekki sama hvernig kveikt er upp í arineldstæðum og því þarf að hafa eftirfarandi atriði í huga og undirbúa uppkveikju í réttri röð:

  • Mikilvæg er að muna áður en kveikt er upp að þetta arineldstæði er alls ekki hannað til að hita upp rýmið heldur er eldurinn einungis til skrauts og til að skapa notalega stemmingu. Þar af leiðandi skal gæta þess að hrúga ekki of miklu magni af arineldivið í eldhólfið þannig að úr verði alltof stór og mögulega illviðráðanlegur eldur.
  • Loftstreymi/súrefni fyrir eldinn: Að skapa rétt loftstreymi er afar mikilvægt fyrir eldinn svo hann brenni rétt og fylli stofuna ekki af reyk með tilheyrandi óþægindum og því er mikilvægt að fylgja eftirfarandi atriðum:
  • Loftlúgur/Loftstreymi (1): Byrja skal á því að opna fyrir lúgu inn í arni sem opnar leið fyrir reykinn upp reykrörið, ef kíkt er upp reykrörið sést handfang sem skal opna fyrir.
  • Loftlúgur/loftstreymi (2): Einnig skal opna tvær litlar loftlúgur sem eru sjáanlegar beggja vegna neðst og innarlega í eldhólfinu. Þær hleypa lofti inn í arininn og hjálpa til við að gefa eldinum súrefni.
  • Loftlúgur/loftstreymi (3): Samhliða þessari aðgerð þarf að huga vel að því að ekkert hindri loftstreymi utan frá (hvít lítil lúga staðsett neðst á útiarni).
  • Loftstreymi – Meira loft (4): Opnið einnig einn glugga í stofunni a.m.k. til að byrja með.
  • Loftstreymi – Fróðleikur – Meira loft = Meiri hiti = styttri brennslutími. Minna loft = Minni hiti og lengri brennslutími.
  • Kalt loft: Áður en kveikt er upp skal kanna hvort kalt loft streymi niður reykrörið. Hægt er að finna það með því að setja höndina inn í arinopið og undir reykrörið.
  • Kalt loft/hitauppstreymi: Kalt loft getur unnið á móti hitauppstreyminu fyrst í uppkveikjunni og myndað öfugan trekk niður reykrörið þannig að reykur berst inn í rýmið með tilheyrandi vandamálum. Það er því afar mikilvægt að lesa áfram allar upplýsingar vel og vandlega til að fyrirbyggja að það gerist.
  • Eldiviður: Aðeins er heimilt að nota sérframleiddan arineldivið.
  • Óheimilt er með öllu að taka trjávið úti í skógi eða annan við og kveikja upp með honum enda getur slíkt skapað mikla eldhættu.
  • Við hefðbundna uppkveikju er best að nota gömul dagblöð og rúlla þeim þétt saman í vöndla. Gott er að nota ca 3-4 blöð saman og ca 4-5 vöndla á milli arinkubba og undir þá. Einnig eru til sérstakir uppkveikjukubbar í sumum verslunum og þá skal nota 2-3 kubba og staðsetja undir eldiviðnum. Óheimilt er með öllu að nota eldfiman vökva að neinu tagi við uppkveikju þar sem það getur skapað mikla eldhættu.
  • Magn eldiviðar fyrir uppkveikju: Mikilvægt er að hafa magn eldiviðar í lágmarki til að byrja með og nota aðeins 3-5 meðalstóra kubba (ekki stóra) og svo er bætt á eldinn eftir því sem hentar.
  • Röðun eldiviðar: Til að koma í veg fyrir eldhættu, þá er mikilvægt er að raða eldiviðnum vandlega ofan á kubbagrindina og í kross þannig að gott bil sé á milli þeirra og að tryggja að þeir falla ekki úr arinstæðinu eftir að kveikt hefur verið upp.

Einnig gott að vita!

Þegar kveikt hefur verið upp og eldurinn er farinn að loga vel og myndast notaleg stemning þá mun eldurinn mynda loftstreymi frá þeim glugga sem opinn er og ef kalt er úti að þá getur kólnað í stofunni þrátt fyrir hita frá arni. Eldurinn sækir sér súrefni til að loga og ræður súrefnismagnið því hve vel hann logar og hve mikið. Ef nægt súrefni næst í gegnum loftlúgur þá er best að loka glugga og láta eldinn sækja súrefni innan frá. Það ætti að vera hægt þegar eldurinn hefur tekið vel við sér og myndað góða hitaglóð og heitt uppstreymi. En stundum dugar það ekki til og þá sérstaklega þegar kalt er í veðri og vindur vinnur jafnvel á móti hitaloftstreymi upp reykrörið og þá þarf að hafa einn glugga örlítið opinn.

Venjulega ætti allt að ganga að óskum við uppkveikjuna en ef það er greinilegt niðurstreymi kalds lofts úr reykröri þá þarf að huga sérstaklega að uppkveikjunni. Allir vita að kalt loft leitar niður á við og heitt loft upp en ef heita loftið er ekki nægilega öflugt í fyrstu uppkveikjunni mun reykurinn úr arninum leita inn og valda óþægindum. Ef sú er raunin eru nokkur ráð til við þessu sem eru eftirfarandi:

  • Ef reyk leggur inn að þá er gott að reyna að snúa reyknum við/trekknum með því að hafa tvo til þrjá auka vöndla af dagblöðum og leggja ofan á viðinn. Hitinn sem þá myndast frá þeim nægir oftast til að snúa trekknum. Kveikið svo í blöðunum milli kubbanna, nú ætti eldurinn að taka vel við sér svo framarlega að það sé verið að brenna þurran við, sem er í raun forsenda fyrir því að heimilt sé að kveikja upp í þessum arni.
  • Kynntu vel upp í byrjun til að fá góðan hita bæði í eldstæðið og upp reykrörið þá myndast góður trekkur. Bætið síðan eldivið eftir þörfum, ekki of mikið í einu þannig að eldurinn koðni ekki niður.
  • Munið að setja neystalúgu fyrir um leið og búið er að kveikja upp, hún er svo aðeins fjarlægð rétt á meðan arinkubbum er bætt á eldinn.
  • Eftir að eldurinn hefur lifnað vel við skal opna glugga örlítið fyrst í byrjun til að auka trekkinn. Ef eldurinn er mikill í arinstæðinu þá getur hann búið til dálítinn súg í gegnum stofuna og kælt rýmið upp. Í flestum tilfellum ættu loftlúgur til hliðar í arinhólfinu að duga.

Munum að brenna bara þurrum við sem sérstaklega er seldur sem slíkur. Aldrei má brenna blautum við.


Af hverju má einungis nota þurran sérframleiddan við?

Allt að helmingur þyngdar á nýfelldu tré er vatn og það fer óhemju mikil orka í að kveikja upp í þannig við. Notaðu aðeins þurrkaðan við sem hefur verið þurrkaður að lágmarki í 6-12 mánuði og þá ætti rakinn að vera innan við 20%. Ef þú brennir óþurrkuðum við fer mikil orka í að losa rakann úr honum sem nýtist ekki til upphitunar. Blautur viður getur skapað sprengingar og auk þess eykur hann á sótmyndun í reykröri sem dregur úr virkni hans svo ekki sé talað um óþarfa mengun. Sjáir þú reyk stíga upp af skorsteini ber það vott um að þú sért að brenna of blautum við. Reykurinn sem kemur upp á að vera nánast ósjáanlegur.

 

Eldvarnir

  • Eldvarnarteppi: Fyrsta ráð ef slökkva þarf snögglega. Staðsett í eldhúsi upp á vegg.
  • Vatn: Það getur verið gott að hafa vatn í könnu við höndina þegar kveikt er upp ef eldur verður óviðráðanlegur en varast skal að skvetta miklu magni inn í eldinn því þá getur glóð skolast út og á parket og jafnvel valdið enn stærra vandamáli. Ef rétt er að öllu staðið og leiðbeiningum fyllt þá ætti ekki að koma upp vandamál.
  • Vatnsúðakanna: Gott er að hafa vatn í vatnsúðakönnu til að nota til að slökkva glóð áður en gengið er til náða. Notast eingöngu á litla glóð sem er við það að slökkna. Notist eingöngu í litlu magni. Vatnsúðakanna er geymd í vaskaskáp.
  • Slökkvitæki: Stutt er í léttvatns slökkvitæki sem skal hiklaust nota ef upp kemur vandamál. Það eru tvö slökkvitæki í húsinu, hitt er staðsett við inngöngu í gestahús. Kynnið ykkur hvar slökkvitækin eru í húsinu. Látið eigendur vita ef slökkvitæki eru notuð. Aldrei má skilja eftir notuð slökkvitæki fyrir næstu leigjendur.
  • Flóttaleiðir: Kynnið vandlega fyrir öllum gestum flóttaleiðir hvernig skal opna krækju á gluggum í herbergjum sem eru flóttaleiðir út. Það er útskýrt nánar í húsreglum hvernig krækjan opnast.
  • Rýmingaræfing: Takið stutta rýmingaræfingu með ykkar fólki og sýnið öllum hvernig skal opna krækju á glugga til að komast út og hvar skal safnast saman.
  • Vandamál: Það er afar áríðandi að láta vita af öllum vandamálum þannig að næsti leigjandi komi ekki að vandamálinu. Skiljið við húsið eins og þið viljið taka við því.
  • Farið aldrei frá opnum eldi: Það er lykilregla að það sé alltaf einhver til staðar til að fylgjast með arineldi sem og öðrum opnum eldi. Mikilvægt er að taka einn hring um húsið og gæta þess að slökkt er á öllum kertum, lömpum og öðru sem gæti skapað eldhættu.

Útiarinn.

Sömu grunnreglur gilda um uppkveikju í útiarni og inniarni – hann þarf einnig þurran við.

Passlegt magn eldiviðar fyrir hverja uppkveikju er u.þ.b. 3-5 kubbar (fer eftir stærð kubba) og svo er bætt á eldinn eftir því sem við á. Ekki er gott að nota of marga arinkubba í upphafi, best er að bæta við kubbum þegar sést að eldurinn er vel viðráðanlegur. Mikill vindur getur haft alvarlegar afleiðingar og feykt eldi og glóð út úr arninum. Það er því alls ekki ráðlegt að kveikja upp í sunnanátt því vindurinn á þá greiða leið inn í eldstæðið sem getur skapað mikla eldhættu, bæði fyrir hús og gróður í kring.

  • Gæta skal að því að nota ekki of marga arinkubba.
  • Of mikill eldur getur náð upp í þakskyggni og valdið alvarlegum afleiðingum.
  • Aldrei skal kveikja upp ef hætta er á að vindur geti feykt glóð.
  • Aldrei má nota annað en viðurkenndan eldivið.
  • Yfirgefið aldrei eldstæði fyrr en allar glæður hafa slokknað. Gangið sérstaklega úr skugga um að öll glóð hafi slokknað.
  • Ath. ef glóð hefur ekki slokknað þegar gengið er til náða skal úða vatni úr blómaúðabrúsa (geymdur í vaskaskáp).
  • Slökkvitæki eru tvö og eru staðsett við hliðina á ísskáp í stóra húsinu og í forstofu gestahúss.

 

Húsreglur og öryggismál

Við komu

  1. Lyklar: Lyklar eru í lyklakassa við hlið útihurðar – leigjendur fá uppgefið númer á lyklalás fyrir komu. Setja skal lykla alltaf í lyklakassann þegar húsið er yfirgefið (styttri sem lengri ferðir) – muna þarf að rugla tölum í hvert skipti.
  2. Fjöldi gesta: Í húsinu er ekki heimilt að hafa fleiri gesti en sem segir til um í leigusamningi. Fjölda gesta skal gefa upp þegar gengið er frá leigusamningi.
  3. Gæludýr eru ekki leyfð, hvorki í húsinu né á lóð.
  4. Reykingar eru stranglega bannaðar í húsinu og við húsið.
  5. Öll meðferð elds á lóð eða í umhverfi hússins er stranglega bönnuð.
  6. Útiarinn er við húsið sem heimilt er að kveikja upp í en það er einungis heimilt ef farið er eftir sérstökum leiðbeiningum og reglum þar um. Sjá nánar undir Bóka og bókunarskilmála.
  7. Sængurver og lök: Ekki er leyfilegt að gista í rúmum án þess að nota hrein sængurver og lök sem gestir þurfa að taka með sér. Skilja þarf við rúmin eins og komið var að þeim, þ.e. með sængum og koddum í ásamt og teppi og „skraut“ kodda yfir sem fylgir hverju rúmi.
  8. Hitastillingar fyrir húsið:

a. Í aðal húsinu er gólfhiti og er hægt að stilla hita í hverju rými fyrir sig með hitastýringum sem eru á vegg við útgönguleiðir.

b. Í gestahúsi og gestaherbergi (viðbyggingu) eru rafmagnsþilofnar sem stilla þarf sér. Hitanemar/stýringar á vegg sýna aðeins raunhita í þessum rýmum.

c. Til að breyta hitastigi í aðal húsinu þarf að snúa takkanum á stýringunni og velja hentugt hitastig. Stóru tölurnar á skjánum sýna raunhitastig.

d. Rafmagnsþilofnar í gestarými og gestahúsi. Aldrei má leggja yfir þessa ofna, t.d. þurrka föt því þeir geta brennt fötin og skapað eldhættu.

9. Gardínur fyrir gluggahurðum: Til að draga frá gardínur er best að rúlla þeim upp og binda með böndum sem eru áföst við gardínur. Gardínur eru látnar falla niður þegar húsið er yfirgefið.

10. Sjónvarp og hljómflutningstæki: Kveikt er á sér ljósarofa hægra megin við útidyr í stofu (rofi merktur sjónvarp). Slökkva skal á honum þegar húsið er yfirgefið sem og einnig þegar gengið er til náða.

11. Skraut og hlutir í hillum: Vinsamlega snertið ekki eða færið til skraut eða aðra persónulega muni að óþörfu.

12. Bækur, mynddiskar og vínilplötur o.fl. persónulegir munir: Heimilt er að nota þessa muni en vinsamlega gangið frá öllu á réttan stað og í rétta röð svo hægt sé að sannreyna að allt sé á sínum stað við leiguskipti.

 

Rafmagnsnuddpottur – umgengni:

Við notkun á rafmagnsnuddpotti skal fara eftir eftirfarandi reglum:

  • Hreinlæti er afar mikilvægur þáttur og skal þrífa sig vel og vandlega með sápu í innisturtunni áður en farið er í pottinn. Það er í raun ein af lykil forsendum þess að heimilt sé að nota pottinn.
  • Hitastig: Ganga skal úr skugga um að hitastigið sé ekki of hátt stillt. Hitastig pottsins er stillt á 37°C þegar komið er að honum og er hægt að stilla mest á 41°C. Slíkt hitastig getur verið óþægilegt fyrir suma og því skal fara varlega ofan í pottinn. Gott er að setja eina skeið af klór ofan í pottinn áður en farið er ofan í hann og stilla á jet takka (nudd) til að hjálpa til við að leysa upp klórduftið.
  • Afar mikilvægt er að potturinn sé þrifinn eftir hverja ferð:
    • Setja skal 2 mæliskeiðar af klór ofan í pottinn.
    • Stillið á þrifaprógrammið (Clean takkinn). Potturinn gengur þá í u.þ.b. 15-20 mínútur og slekkur sjálfur á sér (klór geymdur í þvottaskáp).
    • Ef fólki finnst t.d. of mikið af húðflögum í pottinum þá er um að gera að nota þrifa-prógrammið oftar og bæta klór í.
    • Ef vatn er ennþá gruggugt eða skýjað þá getur verið gott að taka síur upp úr pottinum og skola þær vandlega með vatni undir þrýsting með útislöngunni. Skolið síurnar með því að fletta varlega í gegnum brotin til að opna þær eins og hægt er.
  • Munið að setja lokið á pottinn strax eftir notkun – það kemur fyrir að flugur og ryk fari ofan í hann sem og það sparar rafmagn.
  • Skiljið aldrei börn eftir eftirlitslaus í pottinum.

 

Öryggismál

Eldur / Slys / Alvarleg veikindi – Hringið í neyðarnúmerið : 112 , EINN EINN TVEIR

Ef símasamband er slæmt þarf að færa sig vel vestur fyrir húsið til að ná betra sambandi – húsið skyggir á sendi áHúsavíkurfjalli.

Gefið upp öryggisnúmer hússins – Einnig ef þess er óskað:

    • Sumarhúsið Rósakot nr. 7 í landi Núpar og Kjalar í Þingeyjarsýslu við Aðaldalsflugvöll.
    • Fastanúmer hússins er: 232-3358 – Landsnúmer: 205316
    • Við símsvörun hjá Neyðarlínunni starfar einungis fagfólk sem er vant að veiða upplýsingar upp úr fólki í ýmsu ásigkomulagi. Það er samt mjög mikilvægt að sá sem hringir í 112 nái að gefa þeim sem svarar greinagóðar upplýsingar yfir ástandið á fyrstu 30 sekúndunum í samtalinu sem og staðsetningu.

Nýtið ykkur eftirfarandi upplýsingar varðandi að leiðbeina sjúkrabíl/slökkviliði á staðinn.
Aðkoma Sjúkrabíls/slökkviliðs– (frá Húsavík fram hjá flugstöð):

  • Keyrt er í gegnum sumarhúsahverfið í suðurátt og alla leið að hliði (grindarhlið) þar sem keyrt út úr sumarhúsahverfi að sunnan.
  • Áður en komið er að hliði er beygt í vestur (til hægri) að flugvallargirðingu.
  • Keyrt í norður með flugvallargirðingunni og fram hjá tveim hjólhýsum að afleggjaranum að Rósakoti sem er stutt frá.
  • Mikilvægt er að senda einhvern að afleggjaranum til að taka á móti og leiðbeina sjúkrabíl/slökkviliðsbíl að sumarhúsi.
  • Sjúkrabíll er staðsettur á Húsavík – áætlaður aksturstími er u.þ.b. 14-17 mínútur – fer eftir umferð og færð.
  • Fyrsta hjálp-kassi (fyrir minniháttar slys) er inni í baðherbergi í annarri skúffu hægra megin við vaska.
  • Slökkvitæki – Það eru tvö léttvatnsslökkvitæki í húsinu. Annað er við hliðina á eldhúsi og hitt í gestahúsi fyrir framan snyrtingu. Upplýsið alla gesti um staðsetningu þeirra.
  • Reykskynjarar – Það eru sérstæðir reykskynjarar í húsinu sem og einn í hvoru rými í gestarýmum.
  • Ljós og rafmagnstæki – Slökkva á öll ljós og taka minni rafmagnstæki úr sambandi þegar húsið er yfirgefið.
  • Gætið varúðar í umhverfi hússins – Það leynast víða stórar og djúpar hraungjótur og einnig lausir hraunmolar sem hægt er að misstíga sig og slasa sig á.
  • Flóttaleiðir út úr rýmum – Allir gluggar eru að þeirri stærð að hægt er að komast út um þá (flóttaleið). Til að opna glugga þarf að hafa krækjuna niðri á meðan lítið hak á krækjunni er opnað. Þá er hægt að ná krækju upp af festingu og opna gluggann.
  • Rýmingaræfing – Vinsamlega æfið opnun glugga og upplýsið alla gesti hússins hvernig þetta er gert. Það er á ábyrgð leigutaka að upplýsa alla um hvernig skal opna glugga.
  • Reykingar eru stranglega bannaðar í húsinu og við húsið.
  • Rafmagnsþilofnar í gestarými og gestahúsi má aldrei hylja, t.d. þurrka föt þar sem þeir geta brennt og skapað eldhættu.
  • Fjöldi gesta í sumarhúsi – Ekki er heimilt að hafa fleiri gesti en sem segir til um í leigusamning né á lóð.
  • Ef óskað er eftir að fá að hafa viðbótar gesti á lóð við sumarhúsið í tjaldi eða ferðavögnum þarf að tilkynna það og greiða sérstaklega fyrir það.

Fyrir brottför

Þrífa skal vel og vandlega og ganga frá þannig að næsti gestur komi að bústaðnum eins og þú/þið viljið koma að honum.

 Helstu atriði sem þarf að huga að:

  • Sængur og koddar – Skilja á sængur og kodda eftir í rúmum og draga skal rúmteppin yfir og setja skraut kodda ofan á. Ath. Ekki skal setja sængur og kodda inn í fataskápa.
  • Ryksuga og skúra gólf.
  • Þrífa skal klósett.
  • Þurrka af spegli og vaski inni á baði og í gestahúsi.
  • Tæma leirtaui úr uppþvottavél og ganga frá á sinn stað (eins og komið var að).
  • Tæma ísskáp og frystihólf og þurrka innan úr.
  • Þrífa ofn og örbylgjuofn.
  • Rusl – er losað úr öllum ruslakörfum inni og sett í rusladalla úti.
  • Stólar og borð – inni og úti. Skal raðað upp eins og komið var að þeim.
  • Gluggar og rúllugardínur. Loka skal öllum gluggum og draga rúllugardínur alveg niður (gluggatjöldin sjálf eru látin vera).

Frágangur hluta innan og utan hús:

  • Ganga skal frá öllu á réttan stað og í rétta röð (eins og komið var að) svo hægt sé að sannreyna að allt sé á sínum stað við leiguskipti.
  • Ljós og rafmagnstæki. Slökkva á öll ljós og taka minni rafmagnstæki úr sambandi.
  • Þrif á gasgrilli. Bursta grindina með þar til gerðum bursta og hreinsið aðrar matarleifar af grillinu ef einhverjar eru. Losa á fitubakka og þvo (fitubakki er staðsettur inn í grillskápnum ofan við gaskútinn).
  • Rafmagnspottur – lokaþrif:

Tvær mæliskeiðar af klór eru settar í pottinn og stillt á þvottaprógramm (Clean takki – tími: ca 20 mín) eftir síðustu notkun. Síur eru teknar upp úr potti (þrjár síur hægra megin við stjórnborð – plastloki lyft af) og skolaðar vel og vandlega með köldu vatni á fullum þrýstingi (óhreinindi festast gjarnan á milli brota í síum) og setja skal svo aftur á sinn stað og stilla aftur á þvottaprógrammið eftir að síur hafa verið þrifnar. Ef vatnið er ennþá óhreint er líklegt að það þurfi að skipta um vatn og það tekur tíma og því er best að láta vita af því a.m.k sólarhring áður en húsið er yfirgefið. Ekki er heimilt að gera það án samráðs við eigendur.

Við áskiljum okkur þann rétt að innheimta aukalega fyrir þrif ef við teljum aðkomu vera ófullnægjandi.
Einnig er innheimt sér gjald ef þrífa þarf pott og sótthreinsa.

 ATHUGIÐ! Skjal þetta er hluti að leigu-og bókunarskilmálum.

 

Covid-19 Update 😷

Because of the coronavirus (Covid-19) outbreak, our in-person services are closed until further notice. You can subscribe to our newsletter below to get regular updates on our availability.